Færsluflokkur: Bloggar

Komin með hnút í magann...

Byrjaði daginn á því að undirbúa drenginnn fyrir afmælisdaginn.  Söng fyrir hann afmælissönginn og hann sagði mér að hætta !!

Sagði honum að það kæmu gestir til okkar og nefndi nokkra gesti sem við ættum von á í dag.  Hann var ekki sáttur við öll nöfnin sem ég nefndi "nei ekki hún, nei ekki hann... bara þessi og hinn" .  Ég sagði honum að hann fengi marga pakka en hann vill bara fá tvo... appelsínugult hjól og risaeðlu.  Ég reyndi að segja honum að það væri ekki víst að hann fengi appelsínugult hjól eða risaeðlu, þá fauk í minn !!!

Ég bara krossa fingur og vona að afmælisdagurinn hans verði ánægjulegur !!


Hann á afmæli á morgun... hann á afmæli á morgun

hann á afmæli hann Siggi Tumi, hann á afmæli á morgun.

 Það eru 4 ár síðan þessi gullmoli kom í heiminn.  Ég vaknaði um morguninn með þessa ægilegu verki, ekki hríðarverki samt.  Það var bara eins og það vantaði í mig legið, við hverja hreyfingu hjá barningu fékk ég straum um allan líkamann.  Ég hafði það af að koma stelpunum á fætur og lagðist svo fyrir.  Rétt fyrir hádegi gat ég ekki meir, ég hringdi á hjúkrunarfræðinginn á Dalvík og sagði henni hvernig mér leið.  Hún kom strax og sendi mig með sjúkrabíl inn á Akureyri.  

Þar var ég skoðuð og fljótlega eftir komuna þangað var ákveðið að taka barnið með keisaraskurði.  Ég átti tæpar 6 vikur eftir af meðgöngunni.  Svava systir var þarna með mér til halds og trausts og var hún viðstödd keisarann.  Þegar drengurinn fæddist var pabbi hans á miðri leið milli Dalvíkur og Akureyrar.

Þegar drengurinn fæddist var hann tekinn strax út af stofunni en æsingurinn var svo mikill að það tók enginn eftir því hvort barnið var strákur eða stelpa.  Þegar ég frétti að ég hefði eignast dreng, grét ég af gleði.  Ohhhh.... tilfinningin var dásamleg og nú var bara að krossa fingur að hann myndi jafna sig fljótt !!  Hann var stór við fæðingu þrátt fyrir að hafa fæðst tæpum 6 vikum fyrir tímann 10 mörk !!

 20050112004148_1_699081.jpg Við tók mjög erfiður tími... hann var mikið veikur pjakkurinn og var settur í súrefniskassa.  Lungun hans voru óþroskuð og hann var settur í öndunarvél  Vá hvað þetta var erfitt...  Á barnadeildinni á Fsa vorum við í 9 daga, þá var tekin sú ákvörðun að senda hann suður á Barnadeild Hringsins.  

Eftir að  við vorum komin suður fór hann allur að braggast.  Svava systir mín var mín stoð og stytta í gegnum þennan erfiða tíma og fæ ég henni seint fullþakkað.

Fljótlega eftir að við komum suður fór hann að braggast, þegar við vorum búin að vera tæpar 2 vikur fyrir sunnan fengum við að fara heim.  

Við tóku stanslausar ferðir á milil Dalvíkur og Akureyrar, við vorum undir mjög góðu eftirliti hjá læknunum á FSA.  Hann braggaðist vel og varð hraustur og flottur strákur !!!  Samt hafði ég alltaf á tilfinningunni að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera.  Hann var mjög seinn í hreyfiþroska og þegar hann var 8 mánaða fór hann fyrst í sjúkraþjálfun á Bjargi.  Hann þroskaðist ekki eins og stelpurnar höfðu gert og þessi tilfinning hjá mér var alltaf til staðar.  

Þegar ég svo fór með hann í 2ja og 1/2 árs skoðun þá kom hún alls ekki vel út.  Þá fóru hjólin að rúlla og við tók þroskamat og læknisheimsóknir og bið eftir Greiningastöð ríkisins.  Þangað komumst við svo loksins í apríl s.l..  Þar var hann greindur með dæmigerða einhverfu og ótilgreinda þroskaröskun.  

20080704171839_6_698988.jpg

Í dag plummar hann sig nokkuð vel, hann er með fullan stuðning á leikskólanum, hann fer til yndislegrar stuðningsfjölskyldu aðra hverja helgi og hann er í iðjuþjálfun og talþjálfun. 

Þessi litli drengur hefur gefið mér og kennt mér svo mikið í lífinu....

  Bara nafnið hans fær mig til að brosa !!! 


 

 


Brunahaninn...

...  í dag líður mér eins og brunahananum hérna uppi !!!

Á Langanesið...

...fer ég reglulega... aðallega til afslöppunar og til að opna skólabækurnar... í friði og ró.  Þar er ég stödd núna... finnst ótrúlega notalegt að koma hingað.  Finnst líka gaman að keyra hingað, sérstaklega seint í kvöldin, tala ekki um þegar það er fullt tungl og stjörnubjart... Þá á ég til að stoppa og fara út úr bílnum, setjast á stein og horfa á himinninn og hugsa.. 

Við Taran mín komum hingað seint í gærkvöldi, ég ákvað að fara "hina leiðina", þ.e.a.s. Vopnafjarðarleiðina,  skildist að Sléttan væri ömurleg yfirferðar...

Tumalingur er hjá Birgittu og co. stuðningsfjölskyldunni sinni.  Hann fór þangað í gær sæll og glaður.  Þórður eiginmaður Birgittu sat við eldhúsborðið og las blöðin þegar við komum og Siggi Tumi náði sér í stól og settist hjá honum.  Æji það er svo notalegt að vita hvað honum liður vel hjá þeim.  Hann hefur bara einu sinni kvatt mig, vinkað í mig og sagt bless og það var í eitt sinn þegar ég var að fara með hann til þeirra. 

Bara það eitt segir mér að þar líður honum vel !!

 


Bíddu bíddu..

Er ég orðin rugluð,  eða var ég ekki að lesa það einhversstaðar um daginn að Akureyrarbær ætlaði að hækka verskrá sína um 10%.  

Sorry bæjarstjórn, en síðan hvenær hafiði haft velferð okkar að leiðarljósi ?????


mbl.is Bæjarstjórn Akureyrar róar íbúana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning um pabba !!!

Við gefum honum í mesta lagi 3 vikur... sagði læknirinn við mig í símann þegar pabbi var búinn í uppskurðinum. Ég fraus, ég gat ekki einu sinni grátið, ég bara fraus og 1000 hugsanir flugu í gegnum huga minn;  Hvernig á ég að komast í gegnum það... ekki pabbi minn, ekki pabbi minn... hvað er Guð að hugsa...hvað verður um mömmu, afhverju er lífið svona ósanngjarnt. 

Tilfinningin var reiði... ég var reið við læknana, ég var reið við Guð og ég var reið við pabba, að hann skyldi voga sér að deyja frá mér.

Þegar ég gekk inn á stofuna eftir símtalið þar sem hann lá, grét ég ekki, ég var reið !!! Hann sagði við mig setningu sem ég gleymi aldrei;  "Þú verður að vera sterk, þú verður að vera sterk fyrir mömmu þína og systir þína, ég veit að þú getur það"  Og ég var sterk, ég var svo sterk að ég varla grét, allir töluðu um það hvað ég væri sterk, en ég var ekki sterk, ég var bara reið!! 10 dögum eftir þetta símtal var hann dáinn.  Ég var svo reið í jarðarförinni að mig langaði helst að taka kistuna hans og henda henni út um gluggann. 

Hann var minn besti vinur, við áttum mjög sérstakt samband við pabbi.  Alltaf... þá meina ég alltaf, þegar mér leið ílla,  þá skynjaði hann það, jafnvel þó svo að ég reyndi að láta ekki á neinu bera.  Ég var pabbastelpa.  Minningar hrannast upp.... við að valhoppa niður Ránargötuna.  Ég sit undir píanóinu í Þjóðleikhússkjallaranum kvöld eftir kvöld og hlusta á meðan hann spilar dinnertónlist fyrir matargesti, svo leiðumst við heim.  Við að borða graut á laugardögum í Þjóðleikhúsinu.  Hann að smíða innréttingu í herbergið mitt.  Við í göngutúr 1. maí niðri á Granda og hann er að segja mér hvernig lifið var þegar hann var lítill strákur.  Hann að spila á píanóið sitt og ég að spila á blokkflautu eða syngja. Ég fékk alltaf jólagjöf bara frá honum, eitthvað sem mig langað í.  Gleymi því aldrei þegar hann og mamma fóru til Svíþjóðar og hann keypti alveg eins smekkbuxur og hettupeysu á mig og sig.  Svo fórum við í bæinn í alveg eins fötum.  Hann var með mjög sérstakan fatasmekk hann pabbi, það verður ekki af honum tekið, lengi vel gekk hann i bleikri ullarpeysu sem ég hafði keypt mér í Benetton.   Þegar hann merkti eina skúffuna í ísskápnum mér.  Já ég var pabbastelpa :=) Ég að syngja með honum á hestamannamóti. Allar ferðirnar sem ég skutlaði honum í vinnuna upp á FSA þegar hann var að fara á næturvaktir.  Allar stundirnar sem við sátum í kjallaranum í Hafnarstrætinu og reyktum og töluðum saman um allt og ekkert.  Hann pabbi minn var tónlistarmaður af guðs náð, ótrúlega handlaginn smiður og síðustu 19 árin vann hann á geðdeildinni á FSA. 

Þegar ég eignaðist son kom ekkert annað til greina en að nefna hann eftir pabba... litli drengurinn minn var mikið veikur þegar hann fæddist og þegar ég hringdi í pabba frá vökudeildinni í Reykjavík og sagði honum að drengurinn ætti að heita Sigurður í höfuðið á honum, þá grétum við saman í símann. Tæpu ári seinna var pabbi farinn frá okkur...

Ég sakna hans svo mikið, ég sakna þess að geta ekki tekið utan um hann og sagt honum að ég elski hann og sakni hans mikið,  hvað ég þarf virkilega á honum að halda ennþá, hvað mig langar að tala við hann, gleðjast og gráta með honum.....

Takk elsku pabbi minn fyrir allt... takk fyrir að vera pabbi minn !!!

Í dag eru 3 ár frá því að ég fylgdi honum til grafar, þann 7. október 2005, en hann lést 27. september 2005.

Ég er ennþá reið... og enn reiðari varð ég þegar mamma lést aðeins 16 mánuðum á eftir honum..

Einhver talar um að tíminn lækni öll sár............

 

20071210235539_6 

 


Ég veit... ég get.... ég skal !!!!

Já ég ætla ég get ég skal..... að geta að byrja að blogga aftur !!!

Ótrúlega mikið fallegt og miður búið að ske í lífi mínu á þessu tæpa ári !!!

Stiklað á stóru;  Tumalingur fór á greiningastöðina í mars, við mæðgining gengum þaðan úr með höfuðið reist hátt en þó með smá tár á vanga.  Guttinn fekk greininguna; dæmigerð einhverfa og þroskaröskun.  ég ákvað strax að nú skyldum við berjast saman í lífinu og það höfum við gert fram á þennan dag og erum sko ekkert að bogna undan höggunum.  

Brynjan mín fermdist svo í mai.... svo falleg stelpa og vel gefin.  Hún stendur sig til fyrirmyndar í skólanum og í sumar fékk hún vinnu á kaffihúsi.

Ég sjálf útskrifaðist með hvítu húfuna í vor frá VMA.... lét ekki þar við sitja í námi og rölti upp í Háskólann og skráði mig í fjölmiðlafræði... spennandi nám og á einstaklega vel við mig, vil ég meina  !!!!

 Lífið gengur upp og niður hjá mér.... frekar samt á uppleið, enda stefni ég hátt !!!


Ætla að byrja að blogga...

Ok er ákveðin í að halda þessari síðu áfram, held að það sé mannbætandi að skrifa um lífið sitt. 

Allavega tók ég til í lífinu mínu í haust, losaði mig við eitt og annað sem ég taldi ekki vera að gera sig í mínu lífi, það tók á, eiginlega mun meira en það en nú líður mér svei mér þá bara bærilega. 

Skólinn er alveg að gera sig, ég var í 3 fögum fyrir áramót en í fjórum núna.  Ensku, íslensku, sálfræði og stærðfræði.  Ég sem kann ekkert í stærðfræði, reiknaði og reiknaði í síðasta tíma, man ekki eftir því að ég hafi nokkurn tíman reiknað svona mikið í tíma, yfirleitt sit ég og naga yddara eða strokleður og skil ekki baun í bala hvað ég yfir höfuð sé að gera.....  Hlakka bara til annarinnar, það verður stolt stelpa með hvíta húfu í mai.  Talandi um maí, þá er hún Brynja mín að fara að fermast þann 10. maí !!!

Ég er að fara með hann Sigga Tuma á Greiningastöðina í mars,  er að vinna í því að finna mér íbúð í Reykjavíkinni, svo ef þú veist um einhverja, skildu þá eftir þig spor í kommentum...

Fékk frábæra heimsókn í dag, gömul bekkjarsystir úr Hrafnagilsskóla leit við í kaffi, bara æðislega gaman.  Er ákveðin í að heimsækja hana þegar ég fer suður á Greininastöðina með Sigga litla sæta pung.  

Fyrsta nóttin hans Sigga Tuma hjá stuðningsfjölskyldunni var síðastliðna nótt.  Gekk svona frábærlega og verð ég að segja að heimsóknin gekk framan öllum mínum væntingum.  Frábært fólk þarna á ferð sem tóku hann að sér eina helgi í mánuði, við stelpurnar notuðum tíman vel á meðan, t.d. fórum við Eyrún Tara saman á skauta í dag, en það höfum við barasta aldrei gert. 

En það er komin tími til að ég fari að undirbúa morgundaginn, taka til íþróttaföt, blokkflautu, hrein föt, skólabækur, skrifa í samskiptabók, stilla vekjaraklukkur (ATH KLUKK-UR!!!) 

kv Sif 


Á 3ju viku....

....  er ég búin að liggja inni á bæklingadeild FSA með ónýtt bak, ónýtan vinstri fót og lamaða þvagblöðru.

Mér datt sem sagt sú snilldarhugmynd fyrir tæpum þremur vikum síðan að fara til Dalvíkur og bóna íbúðina í Brimnesbrautinni áður en ég skilaði henni af mér.  Var rétt byrjuð þegar ég gjörsamlega hrundi í gólfið og gat mig ekki hreyft af sarsauka, við erum að tala um að ég gat mig ekki hreyft.  Í ábyggilega 20 mín var ég á fjórum fótum að reyna að jafna mig, fann strax af vinstri fóturinn var í einhverju rugli og helvítis síminn út í bíl. 

Sem betur fer hafði ég gerst lögbrjótur þennan dag og lagt bílnum fyrir framan íbúðina.  Einhvernvegin og ég skil það eiginlega ekki ennþá dag í dag, fór ég að því að skríða út og gat kallað á nágranna minn til að hjálpa mér.  Endirinn var sá að með sjúkrábílnum fór ég á FSA, fyrstu 10 dagarnir hérna voru í morfín móðu, en smám saman hef ég verið að koma til, og í dag er heimferðardagurinn mikli. 

Það sem hefur bjargað geðheilsu minni þessar tæpu 3 vikur eru fartalvan og flakkarinn.  Held að ég sé búin að horfa á 3 seríiur af Friends, fullt af skemmtilegum og leiðinlegum bíómyndum og svo auðvitað netið...... jú ef maður er almennilegur sjúklingur þá fær maður nettengingu:)

Nu er ég sem sagt farin að pissa reglulega bara eins og baby born dúkka, tæmi allt úr blöðrunni sko, skakklappast á hækjum og er sko meira en til í að fara í Fögrusíðuna fögru til hennar fögru systur minnar þar sem fögru börnin mín hafa fengið athvarf hjá henni síðustu vikur.  Reyndar hefur Taran mín verið á Langanesinu hjá pabba sínum og systkinum og held ég að hún sakni mín bara ekki neitt, enda nóg um að vera á hverjum degi held ég.

KVEÐ Í BILI

SIFJAN


ferlega.....

er leiðinlegt að flytja, sérstaklega að pakka niður.  Hvernig veit ég hvað ég á eftir að þurfa að nota þangað til ég flyt.  Ég t.d. pakkaði niður ofnæmislyfjunum mínum, mátti leita og leita og leita í kössum þangað til ég loksins fann þau.

Flutningabíllin kemur á fimmtudaginn og tekur stóra draslið, litla draslið er sem betur fer næstum allt komið á áfangastað, síðasti dagurinn hjá krökkunum á leikskólanum er á fimmtudag og sem sagt á fimmtudaginn flyt ég til Svövu systir með grislingana mína þangað til húsið verður tilbúið.  Gvuð hvað ég held að hún systir mín sé glöð að fá mig og mitt stóð inn á gólf til sín, eða þannig.  Hún hefur svo sem ekkert sagt neitt við mig en ég veit að ég yrði ekkert sérlega spennt fyrir því að fá 4 aukamanneskjur inn á heimilið mitt í óráðinn tíma.  Vona samt innilega að þetta verði ekki meira en vika eða eitthvað. 

Kv Sifjan....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband