Þetta verkefni gerði ég í Eigindlegum rannsóknaraðferðum fyrr í vetur í Háskólanum. Við áttum að skrifa minningarkort og teikna mynd um einhverja minningu sem við eigum. Ég fékk 10 í einkun fyrir þetta verkefni og frábæra umsögn og var mjög sátt !!
Reykjavík 1979.
Vesturbærinn í Reykjavík árið 1979. Það er haust, laufin eru að falla af trjánum og skólinn er nýbyrjaður. Ég var að byrja í 6 ára bekk í Vesturbæjarskóla, nýkomin heim úr Bárðardalnum þar sem ég eyddi sumrinu, brún og útitekin, mamma segir að ég hafi stækkað heilmikið um sumarið.
Pabbi er að búa sig undir að fara í vinnuna, hann klæðir sig í betri fötin og setur á sig Old Spice. Eins og svo oft áður á ég að fara með honum í vinnuna, mamma vann á Kleppspítalanum og var mikið á kvöldvöktum og þá fór ég með pabba í vinnuna.
Við leiðumst niður tröppurnar á húsinu okkar í Ránargötu númer 33 og svo röltum við af stað niður Ránargötuna, húsin standa þétt að hvert öðru, stór tré, krakkar í leik, skrýtin matarlykt berst til okkar frá eldhúsgluggum. Við syngjum My Bonnie is over the ocean, my Bonnie is over the sea , tökum nokkur valhopp og pössum okkur á því að stíga ekki á strik.
Hann kann svo mörg lög, hann var í frægum hljómsveitum í mörg ár áður en ég fæddist, eins og Lúdó sextett og Stefán, City sextett, hann spilaði með frægum söngkonum eins og Ellý Vilhjálms og Erlu Þorsteins.
Á Lækjartorgi kaupum við okkur pylsu, ég vil pylsu bara með tómatsósu, uppi og niðri. Frá Lækjartorgi er stefnan tekin upp Hverfisgötuna þar sem Þjóðleikhúsið stendur, þar vinnur pabbi. Þetta stóra gráa hús ber yfir sér mikinn sjarma og mér finnst það vera stærsta hús í heimi.
Við förum ekki upp stóru tröppurnar upp um aðalinnganginn, heldur förum við niður í Þjóðleikhússkjallarann, göngum niður lítinn brattan stiga og endum í eldhúsinu. Þar er mikið um að vera, kokkar og þjónar á fullu og í litlu herbergi inn af eldhúsinu sitja leikararnir Árni Tryggvason, Bessi Bjarnason, Sigríður Þorvaldsdóttir, Erlingur Gíslason og fleiri. Mig minnir að það hafi verið að sýna leikverkið Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson, undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar leikhússtjóra. Hann Stefán gaf mér alltaf kanel tyggjó þegar við mættumst á göngunum. Mér fannst það ekkert sérstaklega gott, en það var svo góð lykt af því.
Pabbi sest við svarta gljándi flygilinn í matsalnum, ég sest við hliðina á honum og hann byrjar að spila. Hann er tónlistarmaður og spilar fyrir matargesti Þjóðleikhússins. Ég sit alveg kyrr og passa mig að tala ekkert við hann. Ég nýt þess að hlusta á tónlistina og stundum get ég ekki staðist það að syngja aðeins með. Þá brosir pabbi til mín og spilar aðeins hærra svo ég trufli nú ekki borðhaldið hjá prúðbúna fólkinu.
Konurnar eru í fallegum kjólum og karlmennirnir í jakkafötum með bindi eða slaufu. Ég fer og næ í kaffi handa pabba, svart kaffi í stórri könnu með mörgum skeiðum af sykri út í . Ég sest inn í litla herbergið innan af eldhúsinu og leikararnir fara að spjalla við mig og ég borða besta ís í heimi.
Oft sit ég undir píanóinu og nýt þess að hlusta á tónlistina. Lög eins og Litla flugan, Anna í Hlíð, Ljúfa Anna, Við gengum tvö og Hvítir mávar hljóma inn á milli þekktra og vinsælla laga með Ellu Fitzgerald, Nat King Cole, Louis Armstrong og Oscars Petersons og fleiri snillinga.
Þegar ég sit undir píanóinu finnst mér tónlistin verða allt öðruvísi, hún hljómar ekki eins og ég finn hvern einasta takt, hvern einasta tón og hljóm í hjartanu mínu. Tónlistin fyllir mig gleði og það er eins og pabbi sé að spila bara fyrir mig. Mér líður vel og ég held að ég sé hamingjusamasta 6 ára stelpan á landinu. Allt pabba að þakka, hann spilar svo fallega á píanóið, hann er besti pabbinn í öllum heiminum og ég elska hann svo mikið.
Mér finnst tíminn fljótur að líða og nú er pabbi búin að spila og matargestirnir fara í leikhúsið á efri hæðinni. Við förum inn í eldhús og hann fær sér meira kaffi en ég bryð ísklaka sem ég fæ út stórri kistu, fullri af ísmolum. Svo leiðumst við heim á leið, við syngjum og valhoppum og pössum okkur að stíga ekki á strik.
Það er enn og aftur komið haust og laufin farin að falla af trjánum, haustlitirnir eru svo fallegir. Ég er að gefa litla drengnum mínum honum Sigurði Tuma að borða. Hann heitir Sigurður í höfuðið á pabba mínum, besta pabba í heimi.
Litli drengurinn minn er búin að vera veikur, hann er mjög oft veikur þessi litli snáði. Hann fæddist 6 vikum fyrir tímann og var vart hugað líf. En hann spjaraði sig litli kúturinn, augasteinninn hans afa síns.
Ég er að bíða eftir að elsta dóttir mín komi heim úr skólanum til að hún geti náð í yngri systir sína í leikskólann fyrir mig.
Hugurinn reikar upp á sjúkrahús til pabba sem er í aðgerð. Ég er nýbúin að tala við mömmu í símann en hún hafði ekkert frétt, þegar síminn minn hringir, það er læknirinn. Sif mín, við getum ekkert gert meira fyrir hann pabba þinn, æxlið hefur stækkað svo mikið, það er orðið svo stórt að það er komið á stærð við mannshöfuð. Mér þykir það leitt, en hann er að deyja, við gefum honum í mesta lagi 3 vikur.
Ég frýs, ég get ekki einu sinni grátið, ég bara titra og 1000 hugsanir og spurningar fljúga í gegnum huga minn; Hvernig á ég að komast í gegnum þetta, hvernig á ég að komast í gegnum lífið ef pabbi er ekki við hlið mér, kletturinn í mínu lífi, stoð mín og stytta. Ekki pabbi minn, ekki pabbi minn, hvað er Guð eiginlega að hugsa ?. Hvað verður um mömmu ?, Afhverju er lífið svona ósanngjarnt ?.
Tilfinningin er reiði, ég er reið við læknana, ég er reið við Guð og ég er reið við pabba, hann skal ekki voga sér að deyja frá mér. Ég titra á meðan ég keyri inn á Akureyri. Ég held að ég hugsi ekki einu sinni, ég er bara tilfinningalega frosin.
Ég geng inn á gjörgæsluna og á stofu númer 2, stofuna þar sem hann liggur, elsku besti pabbi minn, en ég græt ekki, ég er reið. Hann spyr mig hvort ég hafi fengið símhringinu frá lækninum. Ég jánka því, þá segir hann við mig; "Fyrigefðu mér elsku Sif mín, þú verður að vera sterk, þú verður að vera sterk fyrir mömmu þína og systir þína, ég veit að þú getur það.
Í 10 daga vaki ég og sef á sjúkrahúsinu hjá honum, þetta eru erfiðir 10 dagar því hann þjáist mjög mikið. Hvíldina fær hann loksins þegar ég hvísla að honum; Þetta er allt í lagi pabbi minn, þú mátt deyja, ég spjara mig ég lofa því, ég er ekki lengur reið.
Hann tekur síðasta andardráttinn og tárin fara að renna hjá mér og mér finnst eins og hjartað mitt tæmist þarna í fyrsta skiptið sem ég græt, eftir að ég fékk þetta örlagaríka símtal.
En ég er ekki lengur reið.
Skrifað í minningu föður míns Sigurðar Þóris Þórarinssonar, hljóðfæraleikara og vaktmanns í 17 ár á geðdeild FSA. Fæddur 16. janúar 1944, en lést á FSA þann 27. september 2005. Minning þín lifir í hjarta mínu.
Stór hluti af mér, fór með þér.
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hjartans Sif, þetta er yndisleg frásögn og svo full af tilfinningum og ást. Alda mín dó núna aðfararnótt 13 apríl. Hún pældi alltaf mikið í afmælisdögum..og ég vissi að hún yrði ekki róleg að nota afmælisdag Steinars míns. Ég hvíslaði því að henni að hún mætti nota þennan dag, ég væri búin að spyrja Steinar og hann segði að það væri í lagi.
Hún lést stuttu síðar.
Samúðarkveðjur elsku Sif
Ragnheiður , 16.4.2009 kl. 13:03
Elsku Sif þú ert ótrulegur penni,ég sit hér og græt og græt,þetta eru fallegar minningar sem þú átt,og þú ert heppinn að geta geymt þær í hjarta þínu.Hann var svo yndisleg persóna hann pabbi og það er gott að hugsa um svona fallegar minningar þegar að slæmir dagar poppa upp í hjartanu.Love You KV Stóra sysir Svava
Svava systir (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 15:44
Elsku hjartað mitt, sit hér með tárin í augunum og sting í hjartanu, þú ert snilldarpenni ljúfan mín, og mér þykir alveg óendanlega vænt um þig
Jokka (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 14:15
Vá
Birgir Eiríksson, 18.4.2009 kl. 14:19
Ég fékk sting í hjartað þegar ég las þetta og sá ykkur fyrir mér, eins og ég væri að horfa á kvikmynd.
Ég þekkti pabba þinn, var með honum í 2 hljómsveitum. Ég hringdi í hann stuttu áður en hann dó. Hafði ekki hugmynd um að eitthvað væri að hjá honum. Það vantaði hljómborðsleikara í hljómsveit og mér kom á óvart að hann hafði ekki áhuga, því hann hafði stundum lýst áhuga á að spila saman aftur. Hann mynntist ekkert á ástæðu fyrir þessu áhugaleysi sínu. Við kvöddumst eftir stutt samtal. Þess vegna brá mér mikið þegar ég frétti af andláti hans. Hann var alltaf mjög hraustur.
Við spilum kannski saman seinna.
Móðir þín passaði mig líka þegar ég var barn. Hún kom stundum með okkur í hljómsveitinni þegar við vorum að spila vítt og breitt um landið. Það eru ljúfar minningar.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:34
Fallegt. Vekur upp minningar. Takk Sif mikið ertu flink.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 12:35
Frábært Sif..... Knús á þig
Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 09:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.